Er öruggt að smella á hlekkinn?

Það kemur fyrir að við fáum sendan hlekk í tölvupósti, smáskilaboðum eða á samfélagsmiðlum þar sem sendandinn vill að við smellum á hlekkinn til að skoða einhverja síðu eða efni á vefnum.

Þó að skilaboðin virðast koma frá einhverjum sem við þekkjum og treystum þá er ekkert endilega víst að viðkomandi hafi verið að senda skilaboðin.  Þau geta verið frá einhverjum svikahrappi sem hefur komist yfir aðgang að tölvupósti eða samfélagsmiðlareikningi þess sem skilaboð eru send frá og er síðan að senda hlekki á alla vini eða tengiliði sem svikahrappurinn finnur á aðgangi viðkomandi. 

Tilgangur svikahrappa með slíku er oft sá að smita tölvu eða snjalltæki fólks með spilliforriti sem síðan eyðileggur kerfi eða gögn, til að komast yfir notandanafn og lykilorð viðtakanda eða til að svíkja út pening með einum eða öðrum hætti.

Hver svo sem tilgangur svikahrappsins er þá er eitt víst, við viljum ekki verða fórnarlamb hans.

En hvað er þá til ráða þegar við fáum sendan hlekk sem við erum ekki viss um hvort að sé öruggt að smella á?

Næst þegar þú færð slíkan hlekk þá ættir þú að taka tvær og velta fyrir þér hvort það sé líkt viðkomandi að senda þér slíka hlekki.  Ef ekki þá ættir þú að heyra í viðkomandi og spyrja hvort hann/hún hafi verið að senda þér hlekkinn og hvað þetta sé? 

Ef þú ert vön/vanur að fá slíka hlekki frá viðkomandi þá er næsta skref hjá þér að meta hvort hlekkurinn sé öruggur.  Við hjá Öruggt.is mælum með því að þú skoðir eftirfarandi:

  1. Vísar hlekkurinn á síðu sem þú þekkir og hefur farið á áður?
  2. Skoðaðu hvort það séu villur í hlekknum og hvort ending lénanafnsins sé rétt?  Varðandi villur þá er átt við hvort nafn lénsins sé rétt stafað. Algengt er að svikahrappar búi til lén sem líkist mjög þekktu og traustu léni, t.d. með því að skipta út einum bókstaf í léninu. Frekar nýlegt dæmi um slíkt er þegar svikahrappar skiptu út l (lítið „ell“) fyrir stórt i sem líta alveg eins út þegar ákveðnar leturtegundir eru notaðar. Varðandi endingu þá er átt við hvort hlekkur endi t.d. á .is.  Ef þú gerir ráð fyrir að hlekkurinn vísi á oruggt.is en þegar þú skoðar svo betur þá endar hann á .io þá skaltu sleppa því að smella.
  3. Hægt er að nota þjónustur á vefnum til að meta hvort hlekkur vísi á örugga síðu.  Ein slík er s.k. Safe Browsing þjónusta Google fyrirtækisins sem má finna hér: https://transparencyreport.google.com/safe-browsing/search?hl=is. Þú ferð inn á Safe Browsing síðu Google og setur hlekkinn þar inn og smellir síðan á stækkunarglerið.  Ef þú færð grænt ljós þá eru miklar líkur á því að hlekkurinn sé öruggur, a.m.k. að hann innihaldi ekki einhver spilliforrit. Hér að neðan má sjá sýnishorn af Safe Browsing síðunni þegar athugað er hvort síðan oruggt.is sé örugg.

Hafðu það Öruggt.

Greinar í sama flokki

Tengdar greinar

Nýlegar greinar

5 skref til að þekkja svikapósta 

Svikapóstar eru oft fyrsta skref netglæpamanna í tilraun sinni til að stela kortaupplýsingum, komast yfir notendanöfn og lykilorð eða svíkja út pening.  Það er því...

Persónuvernd

Öll vinnsla með persónuupplýsingar hlíta lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 og er í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og...