5 skref til að þekkja svikapósta 

Svikapóstar eru oft fyrsta skref netglæpamanna í tilraun sinni til að stela kortaupplýsingum, komast yfir notendanöfn og lykilorð eða svíkja út pening.  Það er því mikilvægt að vita hvað skuli gera áður en slíkum svikapóstum er óvart svarað, smellt er á hlekki í þeim eða viðhengi opnuð. 

Ekki láta netglæpamenn plata þig.  Lærðu og fylgdu þessum 5 skrefum til að þekkja svikapósta og þannig komast hjá því að lenda í netsvikum.

  1. Gefðu þér tíma.  Ekki stökkva til og framkvæma það sem er sagt í mögulegum svikapósti, bara vegna þess að skilboðin í honum gefa til kynna að það sé áríðandi að hratt sé brugðist við.  Netglæpamenn reyna yfirleitt að skapa streitu hjá fólki með því að láta það upplifa ákveðna tímaþröng, sem oft hefur þau áhrif að fólk hreinlega gleymir að hugsa skýrt. Gefðu þér tíma til að skoða atriðin í póstinum, sem nefnd eru hér að neðan áður en þú gerir eitthvað. 
     
  2. Hvernig er málfræðin? Ef pósturinn lítur út fyrir að vera frá íslensku fyrirtæki sem þú þekkir, t.d. bankanum þínum, Póstinum eða Skattinum þá ættir þú að gera ráð fyrir vönduðu málfari.  Þ.e.a.s. eðlileg notkun orða, réttar beygingar og pósturinn laus við stafsetningarvillur.  Sama er að segja um pósta frá vinum og vandamönnum.  Ef orðanotkun og samsetning setninga er ekki góð eða ekki í samræmi við það sem þú hefur vanist frá viðkomandi þá skaltu ekki treysta því að viðkomandi póstur sé að berast frá þessum aðilum og alls ekki gefa upp upplýsingar, þ.m.t. símanúmer, notendanöfn og lykilorð og alls ekki smella á hlekki eða opna viðhengi sem eru í póstinum.
  3. Er verið að biðja um persónulegar eða leynilegar upplýsingar? Ef pósturinn sem þú færð biður þig um að smella á hlekk til að gefa upp persónulegar upplýsingar eins og fullt nafn, heimilisfang og símanúmer eða það sem myndi flokkast sem leynilegar upplýsingar eins og notandanafn, lykilorð, leyninúmer bankareikninga eða upplýsingar sem tengjast greiðslukortum eða bankareikningum þá skaltu ekki treysta á að pósturinn sé lögmætur.  Ef þú ert í vafa sem dæmi hvort pósturinn komi frá bankanum þínum þá skaltu hringja í bankann.  EN gættu þess að hringja ekki í númer sem gefið er upp í póstinum.  Farðu frekar inn á heimasíðu bankans þíns eða á ja.is til að finna númerið hjá bankanum.
  4. a. Of gott til að vera satt! Ef að þú færð póst þar sem stendur að þú hafir unnið í happdrætti, erft háa upphæð eftir fjarskyldan ættingja eða prins í fjarlægu landi þarf hjálp þína við að bjarga auðæfum frá valdaræningjum og það eina sem þú þarft að gera er að byrja á því að gefa upp persónulegar og fjárhagslegar upplýsingar eða framkvæma lága greiðslu vegna staðfestingar- eða flutningsgjalds sem dæmi þá getur þú verið viss um að þar séu netglæpamenn á ferðinni.  Ekki svara slíkum skeytum.  Ef um er að ræða Happdrætti Háskóla Íslands eða annan íslenskan aðila þá er að sjálfsögðu í fínu lagi að fara á heimasíðu þeirra (ekki samt smella á hlekk í póstinum) eða á já.is og finna númerið hjá þeim og svo hringja í þá til að fá þetta staðfest – að öðru leyti skaltu henda póstinum.
    b. Of slæmt til að vera satt! Ef þú færð póst þar sem því er haldið fram að þú hafir brotið lög og reglur og átt að fara inn á hlekk til að greiða sekt eða senda peninga fyrir sektinni eða viðkomandi heldur því fram að vera með miður slæmar upplýsingar um þig sem munu fara út á Internetið ef þú greiðir ekki þá getur þú verið viss um að um tilraun netglæpamanna til netsvika er að ræða.  Eins og áður er nefnt þá er í fínu lagi að fá slíkt staðfest hjá lögreglunni hvað sektir varðar en það skal einungis gert með því að finna númer lögreglunnar og hringja í hana.  Alls ekki hringja í númer sem kemur fram í póstinum sem þú fékkst þar sem að það getur verið falskt símanúmer.
  5. Ósamræmi í póstfangi og hlekkjum. Ef þú færð skeyti frá aðila sem er vanalegt fyrir þig þá getur þú byrjað á því að bera saman póstfangið sem sent er úr við annað skeyti sem þú fékkst frá sama aðila eða fyrirtæki.  Sem dæmi, ef þú færð stundum póst frá Skattinum þá skaltu bera saman það sem stendur fyrir aftan @ merkið í póstfangi sendanda við sömu upplýsingar í öðrum pósti eða póstum sem þú hefur fengið frá Skattinum.  Annað sem gott er að skoða er hvort hlekkurinn sem er í póstinum vísar á sama lénanafn og póstfangið.  Ef að pósturinn kemur frá einhverjum@skatturinn.is en hlekkurinn vísar á www.skatturinn.com þá er greinilega einhver tilraun til netsvika í gangi (hlekkurinn í þessu tilfelli endar á .com en ætti að enda á .is).

Við skiljum vel að þetta getur verið snúið og tekur smá tíma að framkvæma en hafðu hugfast að hér er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig til að draga úr líkunum á því að gefa netglæpamönnum færi á að stela peningunum þínum.  Raunveruleikinn er sá að fólk er að tapa hundruðum þúsunda og stundum milljónum króna í netsvikum sem byrja með svikapósti.  Ekki láta blekkja þig.

Hafðu það Öruggt.

Greinar í sama flokki

Tengdar greinar

Nýlegar greinar

Persónuvernd

Öll vinnsla með persónuupplýsingar hlíta lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 og er í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og...