Vefurinn Öruggt.is er vettvangur hagnýtrar fræðslu um netöryggi. Megin tilgangur og markmið með vefnum Öruggt.is er að veita auðvelt aðgengi að gagnlegu efni um allt það sem hafa ber í huga til að flakka um og nota netið á öruggan hátt.
Stafræn tilvist okkar er hægt (margir myndu þó segja hratt) en örugglega að ná sístækkandi hlutdeild í daglegu lífi okkar. Hvort sem það eru samskipti okkar við vini og vandamenn, ríkið, bæjarfélög eða stofnanir á sviði mennta- og heilbrigðismála, umsýsla með fjármuni og yfirsýn fjármála hjá bönkunum eða öðrum lánastofnunum og lífeyrissjóðum, verslun, afþreying og svo mætti lengi telja.
Á sama hátt og við viljum hafa það öruggt í umferðinni, á ferðalaginu eða almennt í okkar daglega lífi í raunheimum þá viljum við einnig flakka öruggt um netið. Enginn vill fá óboðna manneskju inn á heimilið gramsandi í skúffur og skápa þar sem við geymum okkar persónulegu muni. Á sama hátt vill vill enginn láta einhvern ókunnugan komast inn á tölvupóstinn okkar, í myndirnar okkar á netinu eða persónulegu samskiptin okkar á samfélagsmiðlunum.
Það má heldur ekki gleyma því að netöryggi þeirra stofnana og fyrirtækja sem við treystum á í okkar daglega lífi er að stórum hluta byggt á starfsfólki þess. Ekki bara því starfsfólki sem hefur beina umsjón með öryggismálum viðkomandi fyrirtækja eða stofnana heldur einnig öllum hinum sem þar starfa. Það þarf stundum ekki nema lítil mistök eins og einn rangan músarsmell til að koma af stað keðjuverkandi áhrifum sem valdið geta viðkomandi fyrirtækjum fjárhagslegu tjóni, orðsporshnekki og þjónusturofi sem síðan getur haft áhrif á stóran fjölda viðskiptavina og þar með þeirra daglegt líf. Það er því mikilvægt að við tökum öll þátt í að auka vitund okkar um netöryggi.
…sá tími sem við setjum í að auka vitund okkar um netöryggismál er ekki síður samfélagsleg ábyrgð okkar en persónulegur hagur…
Við vonum að vefurinn Öruggt.is nýtist þér sem hjálparstoð til að geta flakkað öruggt um netið og nýtt þér allt það góða sem það hefur upp á að bjóða – áhyggjulaust.
Hafðu það Öruggt.